Væntingar til fæðingarinnar

Að fæða barn er líklega stærsti viðburður sem konur ganga í gegnum í lífinu sínu, og hún fer seint úr minni manns. Bæði tekur það á líkamlega og andlega. Allar konur vilja eiga fullkomna fæðingu, hvernig sem hún er í þeirra huga, og við gerum okkur upp ákveðnar væntingar til fæðingarinnar. Í mömmuhópum kemur gjarnan upp umræða um væntingar til fæðingarinnar og þar segja margar að maður eigi ekki að gera sér upp væntingar, en það er ómögulegt að vilja ekki að eitthvað sérstakt gerist eða gerist ekki.

Ég á að baki mér tvær fæðingar sem voru mjög ólíkar. Í báðum fæðingunum ætlaði ég mér að fara af stað sjálf, nota baðið sem verkjastillandi, sleppa mænudeyfingu og ekki kúka á mig (Hver kannast ekki við það?). Eina sem stóðst í fæðingunum var að ég kúkaði ekki, sem betur fer.

Ég fæddi andvana stúlku í byrjun 2017 og sú fæðing var engan veginn eins og ég hafði ætlaði mér. Ég var með morfín í æð af því að mænudeyfingin gekk ekki strax, fékk ekki að fara í baðið vegna þess og endaði á því að fá mænudeyfinguna. Seinni fæðingin var keisari og ég var svæfð af því að mænudeyfingin virkaði ekki. Hún var því talsvert öðruvísi en sú fæðingin sem ég hafði ætlað mér alla meðgönguna.

Sú lexía sem ég tók með mér eftir þessar fæðingar var sú að það er allt í lagi að gera sér upp væntingar, en það má ekki svekkjast yfir því þegar þær standast ekki. Það er algengt að konur kenni sjálfri sér um ef eitthvað fer út af planinu, og það getur haft mikil áhrif í þróun fæðingarþunglyndis. Við þurfum að passa okkur að verða ekki sárar og fúlar yfir því að eitthvað fór „úrskeiðis“, við komum barninu í heiminn hvort sem það var með verkjastillandi eða ekki, leggangafæðing eða ekki, eða hvað eina. Við erum mömmur og við eigum medalíu skilið fyrir að standa okkur vel. Gleymum því ekki, því annars líður okkur illa.

Sigrún Ásta.

snapchat: sigrunastaa

instagram: sigrunastaa