Barn að eignast barn.

– 12.október 2009 –
Ég mun aldrei gleyma þessum degi, þennan dag gjörbreyttist líf 14 ára gömlu Evu.

Nokkrum dögum fyrr, með hjálp google greindi ég sjálfan mig með góðkynja heilaæxli. Ég sagði nánustu vinkonum frá þessari greiningu og ég ætti tíma hjá lækni nokkrum dögum seinna.

instasize_180513092907.png
Þarna er ég komin 21.viku á leið – og hafði ekki hugmynd um að ég væri ófrísk!

Læknirinn minn hefur þekkt mig frá því ég man eftir mér og hefur þurft að horfa uppá allskonar vitleysu – sérstaklega þegar unglingaveikin skall á. Honum fannst því ekkert skrítið að ég ætti pantaðann tíma hjá sér og tók á móti mér með bros á vör.

,,Hvað er að hrjá þig, Eva mín?“
,,Mig grunar að ég sé með góðkynja heilaæxli, það lekur úr brjóstunum mínum!“

Eftir magamælingar, þreyfingar og hjartsláttarhlustun var þungun staðfest.
HA? HVERNIG? AFHVERJU? ÉG? MEÐ BARNI?

– 14.október 2009 –
Við erum mætt uppá Landspítala – ég, barnsfaðir minn, mamma mín og mamma hans.
Við erum öll dofin af áfalli, hvernig enduðum við hér? 14 ára og 19 ára, nýbyrjuð saman – BARN!
Þegar ég lá á bekknum fóru allskonar hugsanir í gegnum hausinn á mér, hvernig ætluðum við að fara að þessu!

,,Þú ert gengin 22.vikur! Viltu vita kynið?“
,,22.vikur? Kynið? Er þetta orðið barn?“
,,Strákur!!“

instasize_180513092606
Litli fullkomni vel heppnaði 22.vikna strákurinn minn ❤

Ég var ekki tilbúin – við vorum ekki tilbúin.
Eða er maður einhverntímann tilbúinn?
Ég hélt ég væri tilbúin, hélt ég hefði fulla stjórn á öllu sem var í gangi, kynni allt og gæti allt. Mér fannst fólkið í kringum mig með óþarfa áhyggjur, ekki eins og þetta væri að ske í fyrsta sinn.

Umtalið um mig var mikið. Það vissu allir hver ég var og það vildu allir leiðbeina mér, fólk minnti mig oft á dag hvað ég væri gömul – ég var jú bara barn að eignast barn.