Hæ ég heiti Eva og ég er ættleidd.

Alltof oft hef ég lent í samræðum um ættleiðingar. Margir vita ekki að ég var ættleidd árið 2012 af yndislegu manni sem var þá búinn að vera partur af mínu lífi í 8 ár!
Vá og 14 ár í dag!

• Afhverju ertu ættleidd?
• Hvernig er að vera ættleidd?
• Þekkiru pabba þinn?
• Saknaru hans?
• Finnst þér ekki leiðinlegt að börnin þín þekki hann ekki?
• Áttu systkini? Hvað með þau?

Afhverju er ég ættleidd? – Ég skammaðist mín. Hann vildi mig ekki og barðist ekki fyrir mér. Ég var eins og hlutur í hans augum, loksins fékk hann tækifæri á að losna við mig.

Hvernig er að vera ættleidd? – Að vita að þú sért byrði fyrir einhverjum er ótrúlega sárt. Að reyna allt til þess að fá athygli frá einhverjum sem hefur engann áhuga er ennþá verra. En að vita til þess að það sé maður sem er tilbúinn til að gera allt fyrir þig og gerir allt svo að þér líði sem best er hinsvegar betra. Miklu betra. Fyrir mér er ættleiðingin það besta sem kom fyrir mig.
Ég vill vera elskuð fyrir það sem ég er, ekki það sem ég þykist vera fyrir einhvern annan.

Þekkiru pabba þinn? – Já, eða ég hélt það. Ég þekki þann mann sem hann var þá. Ég á góðar minningar með honum, þó svo að þær verði bara taldar á einni hendi. En þessar minningar eru mér allt. Slæmu minningarnar eru mun fleiri og reyni ég að telja sjálfri mér þá trú að það hafi ekki verið hana rétta mynd.

Saknaru ekki pabba þíns? – Jú, meira en allt. Ég elska hann útaf lífinu, hann var pabbi minn í 16 ár og reyndi sitt besta. Ég er sú sem ég er í dag út af öllu sem fór okkar á milli. Ég hugsa til hans á hverjum degi og stundum vildi ég að hlutirnir hefðu ekki farið svona.

Finnst þér ekki leiðinlegt að börnin þín þekki hann ekki? – Nei. Ég er svo fegin. Ég vil ekki að börnin mín gangi í gegnum það með afa sínum, það sem ég þurfti að ganga í gegnum með pabba mínum. Ég vil ekki að þau ,,treysti“ á afa sem ekki er til staðar.
Þau orð sem hann lét falla um mig þegar ég varð ólétt af Róbert verða ekki tekin til baka.

Hvað með hin systkini þín? – Alla mína ævi hefur mér fundist eins og ég þurfi að berjast um athyglina. Ég hef stanslaust þurft að ,,minna“ hann á mig. Ég á 2 samfeðra systkini sem ekki tala við mig í dag. Ég reyndi, en á endanum gefst maður upp.

– En þótt ótrúlegt virðist vera, þá hef ég líka fullt af spurningum, spurningum sem ég fæ líklegast aldrei svarað. Spurningar sem liggja mér svo þungt á hjarta, að ég eyði heilu kvöldi grátandi.

,,Hvar var hann þegar sýningar í leikskólanum/skólanum voru? Hvar var hann þegar ég var misnotuð? Hvar var hann þegar ég var að gefast upp á lífinu sökum eineltis? Hvar var hann þegar ég þurfti sem mest á honum að halda?“

Mér finnst ég ekki vita hver ég er, vitandi ekki hver hann er. Fortíðin er einhvað sem maður fær ekki breytt, en með tímanum lærir maður að lifa með sársaukanum.
En ég get ekki hætt að elska hann og ég veit ekki afhverju. Hvernig er hægt að elska einhvern sem elskar mann ekki til baka?
Ég get orðið svo reið út í hann, svo reið að ég ræð ekki við mig. Ég fékk það frá honum. Við erum fáranlega lík, sem gerir hlutina ennþá verri. Afhverju þarf ég að líkjast manni sem vill ekkert með mann hafa?

Þegar mamma mín kynnist manninum sínum þá vissi ég hvernig það var að eiga pabba. Hann elskar mig óskilyrðislaust, hann stendur upp fyrir mér ef einhvað bjátar á, hann hlustar þegar mér líður illa og hann stóð við bakið á 14 ára gömlu mér þegar ég komst að því að ég væri ólétt. Hann veit alla mína galla, en dæmir mig ekki. Hann hefur gefið mér svo miklu meira heldur en pabbi minn. Ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag, ef það væri ekki fyrir hann. Án hans væri ég brotin. Hann er besti afi sem hægt er að hugsa sér og börnin mín munu fá að alast upp með besta afa í heimi.

Ég er rosalega stolt af því að vera ættleidd.

 

Snapchat – evarun95 // Instagram – evarun95