Að sættast við eigin líkama

Ég trúði því lengi að enginn gæti nokkurn tíman elskað mig fyrir neitt annað en mitt líkamlega útlit, að ef ég væri ekki tágrönn og ef ég klæddi mig ekki ögrandi að þá væri ég ekkert í augum annara. Afhverju ? Afþví að samfélagið kenndi mér það.

Auglýsingar, tímarit og kvikmyndir sýndu nánast einungis grannar, ótrúlega fallegar konur í efnislitlum flíkum sem voru eflaust verulega photoshop’aðar.

Í þessu fólst ákveðið hatur á sjálfri mér, ég hataði útlitið mitt og fannst ég aldrei nægilega falleg eða flott og í kjölfarið fæ ég slæma átröskun og sama hversu grönn ég var þá fannst mér ég alltaf of feit. Ég bar mig ítrekað saman við aðrar stelpur sem mér fannst vera grennri og fallegri en ég og þráði ekkert heitar en að vera eins og þær.

Þessi rammi sem samfélagið hefur sett utan um okkur er svo ótrúlega rangur og ég sé það meira og meira með hverjum degi að það er ekkert að því að vera með bumbu, og að ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir það að vera með slit eftir að hafa gengið með tvö börn.

Það koma oft dagar þar sem ég lít í spegil og við helst fela mig. Ég klæðist oftast víðum fötum svo að það sjáist ekki að ég er með bumbu. Þessi hugsun er svo röng og er eitthvað sem ég er að læra að breyta.

Ég er að læra að elska sjálfa mig og það sem mig vantar er sjálfsöryggið sem gerir mér kleift að virða manneskjuna sem starir á mig tilbaka í speglinum.

Ég er ekki að segja að það sé auðvelt að læra að elska sjálfa sig því að þetta er barátta upp á hvern einasta dag. En þessi barátta er algjörlega þess virði.

Ég vil að börnin mín alist upp vitandi að það er i lagi að passa ekki inn í rammann sem samfélagið setur okkur inn í.

Þangað til næst

Heiðrún Gréta ♡