„Afhverju fær hún tvo pabba en ég fæ ekki neinn“

Dóttir mín er svo ótrúlega heppin að eiga tvo pabba. Þeir eru báðir yndislegir og einstakir á sinn hátt og hún sér ekki sólina fyrir þeim og öfugt.

Alveg frá því ég man eftir mér vorum það bara við mamma og eldri systkini mín. Þau fóru snemma að heiman og þá vorum við mamma bara tvær í kotinu.

Pabbi minn kynnist konu þegar ég er tveggja ára sem vill ekkert með mig hafa og faðir minn fylgir því. Af og til fór ég til hans á sumrin en var aldrei velkomin að öðru leiti. Konan hans yrti sjaldan á mig og var ég yfirleitt bara fyrir henni. Þegar þau svo eignast dóttur saman þá hætta samskiptin á milli mín og föður míns nánast alveg. Einstaka sinnum reyndi hann að koma inn í líf mitt með loforðum um að bæta sig í samskiptum sem svo voru brotin. Um tímabil stalst faðir minn til þess að hafa samband við mig í gegnum síma á meðan hann var í vinnunni en svo hætti það.

Í desember á þessu ári eru þrjú ár síðan ég talaði við hann seinast. Þá sendi ég honum skilaboð og bauð honum að hitta dóttur mína í fyrsta skipti. Hann hefur ekki ennþá haft samband við mig tilbaka.

Ég hef alltaf verið i góðu sambandi við föður fjölskylduna mína þrátt fyrir að vera ekki í samskiptum við pabba minn. Amma mín og bræður pabba míns hafa alltaf staðið við bakið á mér og hefur annar bróðir hans alltaf tekið mér eins og sinni eigin og nánast gengið mér í föður stað.

Ég viðurkenni að stundum öfunda ég hana fyrir að vera svona heppin og eg hef oft velt því fyrir mér afhverju hún fær tvo pabba en ég fæ ekki neinn. Ég er samt svo ótrúlega ánægð og þakklát fyrir sambandið sem Aríana hefur með pöbbunum sínum.

Í mörg ár var ég reið og sár en hélt í vonina. Ég lofaði sjálfri mér að ég myndi aldrei leyfa neinum að særa mig aftur eða börnin mín eins og hann særði mig.

Það er hans missir að vilja hvorki þekkja mig eða börnin mín.

Þangað til næst

Heiðrún Gréta ♡