Einelti er sálarmorð.

Ég hef alltaf átt fáa en góða vini.
Ég flutti til Hafnarfjarðar um miðjan 7unda bekk og byrjaði í Víðistaðaskóla. Ég var fljót að kynnast krökkunum og eignaðist strax vinkonur.
Þegar ég var yngri lenti ég í miklu einelti, svo miklu að þegar við fjölskyldan fluttum í burtu þá leið mér eins og ég væri endurfædd.

Þegar ég byrjaði í 9 bekk eftir gott sumarfrí frá skólanum hvarflaði það ekki að mér að ég væri ófrísk.
Ég naut þess að vera byrjuð aftur í skólanum, hitta krakkana og vera unglingur. Það kom mér því algjörlega í opna skjöldu að komast að því að ég væri komin 22 vikur á leið, ætti von á strák og hefði ekkert um það að segja – þessu var hent í mig eins og hverju öðru stærðfræði dæminu sem ég gat ekki leyst.

Fingri smellt og allt breyttist. Krakkarnir litu á mig sem einhverskonar stökkbreytta geimveru.
Þegar ég horfi til baka þá get ég ennþá séð skelfingarsvipinn á öllum þegar þau áttuðu sig á því hvað væri í gangi.

Það var uppnefnt mig, kúkað í poka og sett í skápinn minn, ég var lamin og kýld, kastað eggjum í gluggann heima hjá mér, það var elt mig, öskrað á mig, gerð símaöt í mig, nafn og heimilisfang opinbert á netinu, barnaland logaði, barninu mínu var óskað dauða og svo lengi má telja.

Ég þorði varla út úr húsi. Einangraðist mikið og glataði sambandinu við vinkonur mínar. Ég varð svo þunglyndi ofan á allt hitt.

Ég fékk heimakennslu frá skólanum því ég gat ekki hugsað mér að mæta í skólann eftir allt sem gerðist.
Ég útskrifaðist úr 10 bekk en komst ekki inn í framhaldsskóla – hvaða unglingur kemst ekki í framhaldsskóla?
Þarna var mér allri lokið. Ég leit á þetta sem algjöra höfnun og fór að vinna.
Ári seinna prófaði ég að sækja um í Fjölbraut við Ármúla og komst inn, loksins gat ég gert einhvað rétt.
Fyrsti skóladagurinn gekk mjög vel, enda með bestu vinkonu minni í skóla – en þegar ég kom heim var ég með um 200 vinabeiðnir á Facebook.
Frábært, það vissu allir hver ég var – stelpan sem eignaðist barn 14 ára. Og fólk sparaði ekki orðin sín.
Ég þróaði með mér mikinn kvíða og þunglyndi, á endanum gafst ég upp og hætti.

Í dag glími ég við afleiðingarnar. Eineltið hefur sett för í sálina, sem hverfa hægt.
Draumurinn minn er að geta farið í skóla og talað við krakkana um reynsluna mína og láta þau skilja að það getur hvaða stelpa sem er lent í því að verða ólétt ung – það eina sem hún þarf er skilningur og stuðningur.

E I N N D A G U R Í E I N U.

Snapchat – evarun95 // Instagram – evarun95