Bestu og verstu dagar lífs míns

Ágúst 2017 var mánuður sem við Almar kærastinn minn biðum spennt eftir, að fá loksins litlu stelpuna okkar í hendurnar. Þetta var búin að vera ömurleg meðganga, ógleði allan tímann, grindargliðnun, svefnlausar nætur og bjúguð.. svo ég var farin að telja mínúturnar í settan dag 16. Ágúst.

Settur dagur kom loksins og við orðin rosalega spennt, myndum loksins sjá litlu stelpuna okkar á næstu dögum.

En þessi dagur varð versti dagur lífs míns og fjölskyldu minnar, um kvöldið dó eldri bróðir minn hann Binni.

Man lítið eftir næstu dögum, vorum öll að reyna að átta okkur á þessu, enn í dag er heilinn minn ennþá að reyna átta sig á þessu. Þetta er svo skrítið.

Loksins kom litla dýrið okkar hún Villimey nóttina þann 24. Ágúst, fæðingin gekk vel að mestu leyti, smá erfiði í endann en endaði vel.

Kistulagningin var sama dag og ég missti af henni.

Mér leið rosalega illa á þessum tíma, var hamingjusöm en rosalega sorgmædd í bland, fékk samviskubit yfir að vera sorgmædd því þetta átti að vera gleði tími og einnig samviskubit þegar ég var glöð, því jú bróðir minn var að deyja hvernig gat ég verið glöð?

En það var nóg að gera, með nýfætt barn og einn 5 ára.

Ég varð reiðari í skapinu, grét mig í svefn öll kvöld og fannst ég ekki ná að syrgja á „eðlilegan“ hátt.

Hjúkrunafræðingurinn í ungbarnaeftirlitnu talaði við mig og bað mig um að fara til læknis og fá hjálp, sem ég gerði og var sett á þunglyndislyf til að koma mér í jafnvægi og mér finnst það hafa hjálpað, þótt þetta verði alltaf erfitt.

En þvílíkur rússibani sem þetta var og er, að reyna finna milliveg á hamingju og sorg.

Binni var 29 ára þegar hann kvaddi okkur, fallegur maður að utan og innan, mikill dýravinur, tónlistamaður og yndislegur bróðir. Hann átti erfitt og barðist við fíknidjöfulinn sem á endanum drap hann. Fentanyl heitir lyfið sem drap hann, lyf sem læknir byrjaði að skrifa á hann vegna verkja útaf MS sjúkdóminum, lyf sem læknir gaf manni í neyslu.

Villimey fær ekki að hitta fallega frænda sinn en ég mun passa það að hún kynnist honum í gegnum myndir, tónlistina hans og allar góðu minningarnar sem við eigum af honum ♡