1 Apríl.

4. Mars 2017 bað maðurinn minn mín. Það var ótrúlega óvænt en samt eitthvað sem við vorum búin að ræða.

Viku seinna pissa ég á prik og viti menn, ég var ólétt. Við ætluðum alls ekki að gifta okkur í flýti, en þar sem við áttum von á ættingjum frá útlöndum í skírn ákváðum við að núna væri rétti tíminn.

Á meðan á meðgöngunni stóð ræddum við mikið um það hvenær við ættum að skíra, hvort við vildum gifta okkur á sama tíma eða bíða.

Sonurinn var svo skírður 1 apríl síðastliðin. Með mánuð til stefnu ákváðum við að slá tvær flugur í einu höggi og halda óvænt brúðkaup í leiðinni. Okkur fannst þessi hugmynd frábær þar sem 1 apríl er alþjóðlegur „gabbdagur“

Við létum bestu vini okkar vita hvað við vorum að hugsa og allir tóku ótrúlega vel í þessa hugmynd. Þá hófst vinnan. Að plana skírn og brúðkaup á innan við mánuði. Við fengum ómetanlega hjálp frá vinum okkar, án þeirra hefði þetta bara alls ekki gengið.

Oft kom upp staða þar sem við vorum viss um að við þyrftum að fresta en á endanum gekk þetta allt upp. Við fórum fram og aftur varðandi allar ákvarðanir, hvort þetta ætti að vera í kirkju eða ekki, casual eða fancy, stór veisla eða lítil… Á endanum fengum við frábæran prest í Áskirkju og salinn þar fyrir neðan.

Við reyndum að gera allt eins auðvelt og heimilislegt og við gátum og með mikilli og ómetanlegri aðstoð tókst okkur að gera þetta ótrúlega notalegt og ódýrt. Ég ákvað að sjá um hár og förðun sjálf og snemma ákváðum við að okkur langaði ekki að vera með fínan mat þar sem við erum ekki þannig týpur og enduðum á að hafa „tacobar“ þar sem fólk gat fengið sér „walking tacos“ eða tortillur með alls konar grænmeti og kjöti og vorum við svo heppin að fá matinn í gegnum móður vinkonu minnar. Við vorum með tvær kökur frá 17 sortum og skírnartertu frá myllunni. Við buðum bara upp á gos í veislunni og okkur fannst alls ekki verra að hafa vínlausa veislu.

Eftir veisluna fóru börnin í pössun og við buðum vinum okkar út að borða á Apótekinu og svo enduðum við daginn á hótel Borg.

Allt gekk eins og í sögu í bæði athöfninni og í veislunni. Að vísu labbaði ég of seint inn að altari og maðurinn minn setti hringinn á rangan putta, en það er bara eitthvað til þess að hlæja að.

Þessi dagur var 100% okkar og eins og við vildum hafa hann. Við vorum umkringd fjölskyldu og vinum sem við elskum og gerðu daginn okkar að öllu leiti yndislegan.

Ég er svo heppin að hafa fundið manneskjuna mína♡