Hlutir sem nýir foreldrar vilja að þú vitir.

Þegar maður eignast barn umhvolfist heimurinn í kringum mann. Maður upplifir allan tilfinningaskalan í einu og veit ekki hvernig maður á að haga sér. Allt í einu ber maður ekki bara ábyrgð á sjálfum sér heldur pínulítilli manneskju sem treystir því að maður verndi hana fyrir allri þeirri illsku sem veröldin ber með sér. Allur tími manns fer í að annast þessa litlu mannveru sem þýðir að minni tími fer í að sinna vinum og öðrum fjölskyldumeðlimum. Það er eðlilegt að vinir og maki gleymist þegar nýr meðlimur kemur inn á heimilið en það er samt sem áður ótrúlega mikilvægt að rækta sambandið við maka og vini.

Það er of algengt að fólk missi vini eða að það slitni úr samböndum fyrstu árin eftir að barn kemur inn á heimili. Sjálf missti ég mikilvæga manneskju úr mínu lífi eftir að sonur minn fæddist. Oft eiga barnslausir einstaklingar í erfiðleikum með að skilja breytinguna þegar vinir manns eignast börn vegna þess að lífin taka allt í einu mismunandi stefnur. En þetta þarf ekki að gerast.

Hér eru nokkrir hlutir sem nýir foreldrar vilja að vinir sínir viti.

Við erum ekki að hunsa þig.

Fyrstu vikurnar þegar nýtt barn kemur inn á heimili fer allur tími í svefn og að hugsa um barnið. Ef við svörum ekki símanum eða getum ekki farið út eða fengið gesti þá er það ekki gert af illsku við þig. Við höfum hreinlega ekki tíma.

Við söknum þín.

Það að læra að bæta lítilli manneskju inn í sitt daglega líf er ekki auðvelt og við söknum þess að hanga með vinum okkar.

Ef þú saknar okkar, ekki vera hræddur við að hanga í okkar „heimi“

Já okkar heimur einkennist af gráti, hori, skítugum bleium og fötum með blettum sem við könnumst ekki við. En þrátt fyrir það erum við nákvæmlega sama manneskjan og við vorum áður en við eignuðust barn… Nei í alvöru.. Við erum það.

Það er meira sem skiptir okkur máli en barnið okkar.

Jú barnið kemur alltaf í fyrsta sæti, en það þýðir ekki að okkur sé sama um allt annað.
Við viljum ennþá heyra um stefnumótið sem þú fórst á eða hvernig þér gengur í vinnunni.

Við dæmum þig ekki fyrir að eiga ekki börn eða fyrir að vilja ekki börn.

Það að þú eigir ekki barn eða viljir það ekki skiptir okkur engu máli. Við völdum ekki að vingjast við þig afþví það gæti verið möguleiki á því að einhverntiman í framtíðinni kæmir þú með afkvæmi.

Þín vandamál skipta okkur jafn miklu máli og okkar eigin.

Þú skiptir okkur máli. Ef þér líður illa þá líður okkur illa. Ekki loka þig af. Talaðu frekar við okkur.

Þó svo við segjum oft nei, ekki hætta að spyrja.

Það er algengt að barnlausu vinirnir gleymi þeim sem eiga börn. Þó svo við foreldrarnir komumst ekki alltaf með á viðburði þá viljum við ekki að þið hættið að bjóða.

Það er ekki auðvelt að fá pössun.

Margir foreldrar eiga erfitt með að setja barnið sitt í pössun og það geta verið margar ástæður fyrir því. Lítið stuðningsnet og því erfitt að fá pössun eða foreldrinu kvíður hreinlega fyrir því að setja barnið sitt í hendur annara.

Við erum meira en bara foreldrar.

Ég hef tekið eftir því að fólk skilgreini mig sem „bara mömmu“. En ég er svo miklu meira en það. Jú ég er mamma, en ég er líka manneskja með drauma og væntingar um framtíðina alveg eins og þú. Þó svo þitt líf sé ekki eins og mitt og þá er ég að lifa mínu lífi alveg eins og þú. Þau eru kannski ekki eins, en alveg jafn mikilvæg.