Bókahorn Mæðra.com – #1

37748541_2247108478639788_5514426425366544384_n

Ég gleymi seint þeim dögum þegar ég sat í íslenskutíma í Fjölbrautaskóla Suðurlands og átti að lesa Snorra-Eddu, með áherslu á Gylfaginningu. Flestir sem þekkja mig hafa eflaust heyrt mig kvarta undan þeim tímum, allt frá því þegar ég kom úr fyrsta tímanum fram til dagsins í dag. Ég hef alla tíð haft virkilega gaman að sögum og lestri, en Snorra-Edda náði mér ekki. Mér hefur alltaf þótt goðafræðin heillandi en mér þótti erfiðara og leiðinlegra að lesa þessar sögur. Síðan þá hef ég alltaf haft ákveðna „fordóma“ gagnvart goðafræðinni. Ég hafði reynt að lesa um hana á netinu en það gekk aldrei.

Uppáhalds bókin mín frá því að ég var ung er Coraline eftir Neil Gaiman. (Hver ætli verði fyrstur að gera grín af nafninu hans?) Ég sá í byrjun mánaðarins (júlí) að hann hafði gefið út bókina „Norse Mythology“ og ég sá loksins fram á að geta fræðst um norska goðafræði, enda er höfundurinn alveg einstakur.

Í bókinni eru „aðalpersónurnar“ kynntar og sagt stuttlega frá hlutverki þeirra. Síðan eru sagðar sumar af skemmtilegustu sögunum þeirra. Frásögnin helst öll í hendur og er hún þannig línuleg og í samhengi. Sagt er frá ástum og sorgum, hetjudáðum, brellum og svikum. Með lestrinum fáum við að skyggjast inn í hugarheim goðanna. Við lærum að meta, eða meta ekki, ákveðnar persónur, lærum um sögu þeirra og sambönd milli ættanna.

Í heildina var bókin vel skrifuð og auðlesin. Hún hélt manni við efnið með samtölum goðanna sem voru skemmtilega uppsett og grípandi. Ég myndi mæla með þessari bók bæði fyrir fullorðna og fyrir börn, enda tel ég mikilvægt að norrænu goðsagnirnar séu partur af menningu okkar sem ekki má gleymast. Ég hefði a.m.k. svo sannarlega viljað eiga þessa bók til þegar ég var í skólanum.

Bókin fæst hér á íslensku

mæður