Andleg veikindi : persónuleg reynsla.

Alveg síðan ég man eftir mér hef ég glímt við ýmis andleg veikindi.

Ég hef glímt við alvarlegt þunglyndi síðan ég var barn, mikinn og slæman kvíða sem er oftast órökréttur sem og aðskilnaðarkvíða, félagskvíða útaf miklu einelti og fæðingarþunglyndi.

Þetta er eitthvað sem ég hef skammast mín fyrir lengi en það er kominn tími til að takast á við þetta og stíga áfram í lífinu.

Í grunnskóla var ég lögð í slæmt einelti og hef því alltaf átt erfitt með að eignast vini eða treysta fólki. Þegar það var verst var ég oft króuð af, var skotin með loft byssu, sett dauð dýr í póstkassann minn, grýtt með steinum og þegar ég varð eldri breyttist það í munnlegt ofbeldi. Oftast var þetta frá fólki sem þóttust vera vinir mínir sem varð til þess að ég á mjög erfitt með að eignast vini í dag eða treysta því að fólk vilji yfirhöfuð vingast við mig. Mér finnst ég aldrei passa neinstaðar inn og finnst mér ég ekki vera nægilega góð fyrir það sem ég hef. Hvort sem það er vinna, vinir eða eitthvað annað.

Þegar ég var ólétt af dóttur minni veiktist ég mjög illa, mér fannst ég ógeðsleg, það sem átti að vera yndislegasti tími í lífi mínu var orðinn að algjörri martröð. Áður en að stelpan mín fæddist þufti ég að fara í 3 aðgerðir og ég lá inni á landspítalanum í að meðaltali 2 mánuði á meðan ég var ólétt og svo þrjá mánuði eftir að ég stelpan mín fæddist.

Í kjölfarið á veikindunum fékk ég ótrúlega mikið og slæmt fæðingarþunglyndi.

Ég gerði mér alveg grein fyrir því að hvernig mér leið var ekki eðlilegt, en samt reyndi ég að ýta þessum tilfinningum frá, ég átti rosalega erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfri mér að það var eitthvað að.

Einkennin eru aldrei eins, en mín einkenni voru aðallega mikil depurð, ég var alltaf pirruð eða leið og grét yfir öllu. Ég átti erfitt með að koma mér fram úr rúminu og jafnvel einföldustu athafnir, eins og að fara í sturtu, greiða á mér hárið, bursta tennurnar og fleiri voru ótrúlega erfið og mér kveið rosalega fyrir þeim.

Þegar ég var sem verst reyndi ég allt sem ég gat til þess að forðast það að vera ein með dóttur mína og sökkti mér í vinnu. Í dag veit ég ekkert betra en að koma heim og fá knús frá börnunum mínum, lesa fyrir stelpuna mína, pústa eða mála mynd. Ég er ennþá að glíma við þunglyndi að einhverju leiti. Ég glími ennþá við sömu vandamál og ég gerði enda leitaði ég mér aldrei hjálpar fyrr en núna. Ég á góða daga en upp á móti á ég daga þar sem ég er í algjörri lægð sem á sér enga ástæðu.

Ég er í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi sem hjálpar mér ekki bara með fæðingarþunglyndið heldur hjálpar hún mér að vinna í öllum mínum vandamálum. Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri við að mæta í þá tíma. En maður tekur víst bara eitt skref i einu. Skref númer eitt er alltaf að viðurkenna að eitthvað sé ekki rétt.

Þrátt fyrir andleg veikindi þá er ég ótrúlega heppin. Ég er í góðri vinnu, á frábæra vini, yndisleg börn og mann sem elskar mig og styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Gott stuðningsnet er að mínu mati nauðsynlegt. Gott stuðningsnet getur bjargað lífi.