Er barnið mitt öðruvísi?

Þegar börnin okkar fæðast fáum við litla bók með þeim, heilsufarsbókina. Aftan á henni er vaxtar- og þroskatafla sem segir okkur að eðlilegast er að barnið okkar fari að hjala á milli 2 og 4 mánaða, sitja 6 til 9 mánaða og tala orð 10 til 13 mánaða.

Þegar við verðum óléttar förum við flestar í bumbuhópa, sem breytast svo í mömmuhópa þegar börnin fæðast. Þar fáum við fréttir af hinum börnunum sem eru farin að hjala, sitja og tala orð.

En hvað þegar barnið okkar er ekki farið að hjala, sitja og tala orð? Er barnið okkar „eftir á“ og ekki í lagi? Er okkur að mistakast sem mæður? Hvað getum við gert? Við gúgglum og lesum og sjáum meira um það að barnið á að vera farið að hjala, sitja og tala orð á ákveðnum tíma. Svo lesum við meira og sjáum að öll hin börnin eru löngu farin að hjala, sitja og talað orð, langt áður en „rétti aldurinn“ er kominn.

Ég eyddi miklum tíma í áhyggjur eftir að Alma fæddist. Hún var ekki farin að brosa, og þá sannfærði ég mig um að hún væri einhverf. Þegar hún fór að brosa en ekki hjala sannfærði ég mig um að hún væri mállaus. Kvíðinn var endalaus, hann var yfirgnæfandi.

En vissiru að barnið þitt er fullkomið? Þótt það fari ekki að tala orð fyrr en 14 mánaða. Vissiru að barnið þitt þroskast á þeim hraða sem það ætlar sér, þó svo að þú hafir áhyggjur og kennir sjálfri þér um. Barnið okkar er bara lítið einu sinni. Við fáum bara að sjá fyrsta brosið einu sinni og hjálpa því að taka fyrstu skrefin einu sinni. Við viljum njóta þess og eiga góðar minningar af því í stað þess að eyða þessum dýrmæta tíma í áhyggjur. Barnið okkar er fullkomið eins og það er. Elskum það eins og það er.

Að lokum vil ég samt taka það fram að ég hef enga fordóma gagnvart einhverfum, mállausum og öllum öðrum sem falla ekki inn í „normið“.

mæður