Pabbi ♡

Ég gerði bloggfærslu þar sem ég sagði frá því að ég væri ættleidd, spurningar sem ég er mikið spurð útí og svör mín við þeim – þið getið lesið færsluna hér.

En núna er kominn tími á færslu um elsku pabba minn, sem gerði óeigingjarnan hlut og tók mig að sér, elskaði mig og gekk mér algjörlega í föðurstað ♡

Ég var 9 ára þegar hann kom inní líf mitt.
Ég og mamma vorum búnar að vera einar allt mitt stutta líf, ég svaf uppí hjá henni og hún var mamma mín.
Það var því mikið sjokk þegar hún kynntist pabba.
Ég skal alveg viðurkenna það, mér fannst hann vera að stela henni af mér og ég reyndi allt til þess að hann myndi ekki taka hana í burtu. Já, ég var ekki skemmtileg við hann. Hún var mín!
En ekki gafst hann upp, því 14 árum (og 14.000000 dramaköstum) seinna er hann ennþá hérna.
Og hvar væri ég án hans?

Ég var rosalega týndur krakki, brotin því blóðfaðir minn vildi mig ekki nema á hans forsendum og í mikilli uppreisn.

Hann var ákveðinn. Ákveðinn í því að gera ekki upp á milli okkar systkinana. Ákveðinn í því að elska mig sem sína eigin dóttir. Ákveðinn í því að hjálpa mér þegar mér leið illa. Ákveðinn í því að styðja alltaf við bakið á mér, þótt hann væri ekki sammála að mínum ákvörðunum í lífinu. Ákveðinn er það sem hann er.

Við höfum ekki alltaf verið sammála. Enda bæði afskaplega þver. Hann hafði sína skoðun og ég mína. Ég hlustaði ekki alltaf (okei mjög sjaldan) á hann þegar ég var unglingur og fannst hann ekkert eiga að skipta sér af mér og mínu lífi. Hann átti mig ekki þá.

En hver þurrkaði alltaf tárin mín þegar blóðfaðir minn brást mér? Eða var til staðar fyrir mig þegar mér fannst heimurinn vera á herðum mér? Hver sagði mér að ,,þetta reddast“ þegar 14 ára ég komst að því að ég væri ófrísk? Hver tók börnunum mínum sem sínum eigin afabörnum? Hver stóð upp fyrir mér og ættleiddi mig? Hver elskaði mig eins og ég var? Hver hefur verið til staðar fyrir mig á hverjum degi í 14 ár?

instasize_180913194543.png

 

PABBI MINN! 

 

instasize_180801215603