Fæðingarþunglyndi

Hjartað mitt brotnaði þegar ég var að skoða innri tölfræði Mæður.com og sá að einhver hafði leitað eftir fæðingarþunglyndi.

Fæðing barns á að vera svo fullkomin stund. Að fara heim með barnið og hugsa um litlu veruna sína. En það er ekki alltaf þannig. Við tekur lífið sem snýst ekki lengur um þig, heldur barnið. Allar ákvarðanir sem við tökum eftir fæðingu barnsins eru miðaðar út frá því. Ofan á það koma svefnlausu næturnar eða slitni svefninn.

Þegar litið er til alls er ekki skrítið að sumum, jafnvel mörgum, foreldrum líði eins og lífið þeirra sé einskonar fangelsi. Síþreyta, pirringur, aukin eða minni matarlyst, hausverkur, o.s.frv. eru allt merki um að ekki sé allt með felldu. Merkin geta jafnframt verið mun stærri, eins og t.a.m. skortur á tengslum við barnið.

Ég þjáðist af fæðingarþunglyndi, en sem betur fer stóð það ekki lengi yfir. Ég fann fyrir áhugaleysi gagnvart barninu og svo sektarkennd yfir því að vera ömurleg, hræðileg mamma. Barnið ætti miklu betra skilið hugsaði ég. Eftir að ég sagði við manninn minn að ég ætlaði að láta hann fá fullt forræði og hverfa fattaði ég að eitthvað væri að, og að ég þyrfti hjálp.

Ég var sett í próf í ungbarnaverndinni og í ljós komu auknar líkur á þunglyndi. Sé fæðingarþunglyndi, sem á að vera tímabundið ástand, látið vera getur það þróast yfir í langvarandi geðraskanir. Þess vegna er mikilvægt að ef þú, kæri lesandi, móðir eða faðir, finnur fyrir langvarandi vanlíðan eftir fæðingu barnsins þíns að þú leitir þér hjálpar eins fljótt og auðið er.
Þú átt það skilið. Barnið þitt á það skilið. Það á þig skilið.

Ein athugasemd á “Fæðingarþunglyndi

Lokað er fyrir athugasemdir.