Að halda vináttu eftir barnseignir

Já að halda sambandi við vini mína eftir að ég varð fyrst mamma var erfiðara en ég hélt, sérstaklega því vinkonur mínar voru ekki á sama stað og ég. Ég kenndi þeim alltaf um að sambandið minnkaði eins og margar þungaðar konur eða konur sem eru nýbúnar að eiga gera stundum, en það var bara alls ekki rétt og sanngjarnt af mér, MITT líf breyttist, ÉG fékk nýja ábyrgð í mitt líf og mikilvægt af mér að hugsa um þetta nýja hlutverk af bestu getu. Vina sambönd slitnuðu því við þroskuðumst í sitthvora áttina.. ekki upp og niður heldur hægri og vinstri og eg se það betur i dag að það er ekki í lagi að setja abyrgðina alfarið á vinina um að reyna rækta vináttuna, þetta er eins og ástarsamband, baðir aðilar þurfa að sinna þessu sambandi. 50/50 „vinna“.

En ég er ótrúlega heppin með eina manneskju sem hefur verið mín besta vinkona í svo mörg ár, eða um 20 ár takk fyrir pent. Hún hefur sýnt mér þolinmæði á meðan ég hef ekki haft tíma í neitt annað en börnin mín, en hún veit að ég er alltaf til staðar fyrir hana eins og ég veit að hún er alltaf til staðar fyrir mig.

En það er líka mikilvægt fyrir mig að rækta það samband eins vel og ég get og ég reyni það, þótt það sé bara eitt lítið hæ á facebook eða ein mynd á snapchat, mikilvægt að láta vita af sér reglulega og láta manneskjuna vita að ég sé að hugsa um hana.

Ég veit að það eru margar í svona stöðu að missa sambönd við vini sína eftir barnsburð og ég tel mig vera ótrúlega heppna að hafa krækt í þessa vinkonu, en það eru aðrar mömmur þarna úti sem eru einmana og því sniðugt að reyna að rækta sambönd við aðrar mömmur. Ég var líka ótrúlega heppin að hafa fengið að vera með á þessu mömmubloggi og hef ég kynnst þessum æðislegu stelpum hér og finnst ég vera mjög heppin að geta kallað þær vinkonur.