Jólasmákökur með Súkkulaði & Kókos

Mér hefur alltaf þótt einstaklega skemmtilegt að elda og baka, finna nýjar uppskriftir og fullkomna þær eftir mínum smekk. Ég er ótrúlega heppin að fólkinu í kringum mig finnst einnig gaman að allskonar matreiðslu og sitjum við maðurinn minn oft saman á kvöldin og ræðum uppskriftir.

Í seinustu viku var Aríana hjá okkur og við ákváðum að skella í eina sort af smákökum, sem svo óvart urðu svo tvær sortir! þessa uppskrift hef ég gert seinustu tvö jól og verður hún bara betri í hvert skipti sem hún er gerð.

Við færðum svo fjölskyldu og vinum afraksturinn og fengu kökurnar frábærar viðtökur, svo að mér datt í hug að skella inn uppskriftinni fyrir ykkur sem eigið eftir að baka fyrir jólin!

  • 240gr. brætt smjörlíki.
  • 2 dl. sykur.
  • 1,1 dl púðursykur.
  • 5 dl hveiti.
  • 3.5 dl kókosmjöl.
  • 3 egg.
  • 1&1/2 tsk matarsódi.
  • 1/2 tsk salt.
  • 200-300 gr súkkulaði.

Ofninn er stilltur á 180gr, blástur og undir og yfir hiti. Sykurinn, púðursykurinn og eggin eru þeytt saman. Smjörið er svo brætt (þarf ekki að vera 100% bráðnað) og þeytt saman við sykurinn og eggin. Hveitinu og kókosmjölinu er síðan bætt við ásamt salti og matarsóda. Þetta er svo allt hrært saman og síðast er svo súkkulaðinu bætt við. Þetta er svo rúllað í litlar kúlur og sett í ofn í sirka 6 mínútur, fer eftir ofninum. 

Við gerðum uppskriftina bæði með venjulegu suðusúkkulaðidropum og svo með smáttsöxuðu appelsínusúkkulaði, báðar tegundir komu ótrúlega vel út.

Verði ykkur að góðu.