Losaðu þig við óreiðuna með þessum 6 skrefum

I’d rather have extra space & extra time than extra stuff.

Hvað er betra en að byrja nýtt ár í að losa sig við drasl heima hjá sér? Hérna niðri er ég með lista sem ég persónulega á nóg af, allskonar drasl sem hefur engann tilgang á heimilinu lengur og af einhverjum ástæðum í staðinn fyrir að losa mig við það, þá endar þetta alltaf i einhverjum skúffum og skápum og svo bara bætist og bætist stafflinn og allt orðið yfirfullt.

Ég tók saman það helsta sem mér datt í hug og mig grunar að þetta sé svona á öðrum heimilum.

1 Gömul rúmföt

Við notum bara 2-3 sett á rúmin okkar en af einhverjum ástæðum safnast þetta upp inni skáp. Ég hef verið að setja rúmföt í rauða kross gáma en þau geta nýtt efnið í allskonar.

2 Snúrur, hleðslutæki og þess háttar

Ég er algjör hoarder þegar það kemur að snúrum, hleðslutækjum og þannig drasli. Afhverju? Nú ég gæti þurft hleðslutæki á gamla góða nokia símann einn daginn eða skrítna hleðslutækið á fína motorola samlokusímann – æj góða! Ef þú ert ekki búin að nota þetta í ár farðu með þetta í endurvinnsluna!

3 Föt sem hafa ekki verið í notkun i marga mánuði

Ég fer í gegnum fötin okkar 1-2x á ári (oftar hjá yngsta dýrinu) og gef eða fer með i rauða krossinn. Ég geymi aðeins það sem mér þykir einstaklega vænt um.

4 Bækur, ruslpóstur, kvittanir og þess háttar

Til hvers að geyma bækur ef þú VEIST að þú munt ekki lesa hana aftur? Afhverju ekki að gefa hana áfram? Og guð, pósturinn og ruslið sem safnast oft hingað inn er svakalegur, ég hendi oftast en oft lendir þetta ofan í skúffu.

5 Eldhúsáhöld sem hafa ekki verið í notkun í mörg ár

Ég á svo mikið af drasli í eldhúsinu og mikið af því sama og í rauninni nota ég bara 5 hluti í eldamennskuna og svo diska og það.

6 Leikföng sem eru ekki heil

Ég fer sjaldan í gegnum leikföngin á heimilinu en guð þegar ég geri það þá er ansi margt hauslaust og brotið sem fer beint í ruslið. Einnig er gott að gefa eða selja það sem börnin eru hætt að nota, við þurfum ekki að safna þessu öllu.

~♡~

Ef þér finnst þetta hljóma of mikið þá um að gera að fara rólega í þetta, taka eitt í einu, það þarf ekki að taka þetta á einum degi – eiginlega mæli ég gegn því, þá endar þetta í meiri rugli.

Ég lofa þér því að ef þú tekur saman lista af hlutum sem safnast upp hjá þér og fjarlægir þá, þá mun þér líða betur heima hjá þér. Það er alveg merkilegt hvað draslið í kringum okkur hefur mikil áhrif á okkur. Mér persónulega líður mjög óþæginlega og get lítið einbeitt mér ef ég veit að það er að safnast saman eitthvað drasl einhversstaðar, þannig mér finnst gott að gera þetta 1x á ári. Ég vona að þetta hafi komið einhverjum í gang.

Þangað til næst.