5 ástæður afhverju þú ættir að flytja út á land

Við bjuggum á höfuðborgarsvæðinu og höfðum það ekkert sérlega gott peningalega séð, misstum svo íbúðina okkar og allt komið í rugl. Það kom upp hugmynd sem ég hreinlrga man ekki hvaðan kom að flytja hingað á Bíldudal. Pabbi býr hérna fyrir vestan og ættaður héðan svo ég þekkti eitthvað til. Við njósnuðum aðeins og Almar gat fengið vinnu mjög fljótlega og íbúð losnaði fljótlega svo við bara skelltum okkur! Planið var nú bara að vera hérna stutt, vinna og safna okkur pening en það breyttist fljótt og er þetta fjórða árið okkar hérna!

Fólk spyr mig endalaust afhverju vestfirðirnir?? Hvað er svona spennandi þar?

Þetta er alveg örugglega alls ekki fyrir alla en fyrir okkur Almar sem erum bæði mjög rólegt fólk þá er þetta alveg fullkominn staður og ég mæli með að fólk prófi, skríði úr hòfuðborgarholunni og skoði landið aðeins betur.

Náttúran

Náttúran hérna er alveg mögnuð og það er það fyrsta sem ég varð ástfangin af við þennann stað. Bíldudalur er lítill bær sem er umkringdur fjöllum og einstaklega fallegri náttúru. Og halló það eru bara hvítar strendur hérna og sægrænn sjór! Costa del Bíldudalur. Mæli allavrga sterklega með að folk komi í frí vestur og skoði, þið sjáið ekki eftir því.

Samfélagið

Þetta er öruggt samfélag og alveg magnað að sjá krakkana í bænum hlaupandi í leik áhyggjulaus, engin traffík, ekkert vesen.

Hér þekkjast líka allir, ég man eftir í Reykjavík að maður þekkti ekki fólkið sem bjó í sömu blokk. Hérna heilsast allir og stoppa og spjalla og fólki þykir vænt um nágrannann. Þetta er einnig lítið samfélag og ekki mikið af krökkum í leikskóla og grunnskóla eins og í höfuðborginni svo ég veit að börnin mín og önnur fá þá athygli sem þarf fra kennurum.

Stresslaust umhverfi

Eftir að við fluttum hingað er mig farið að kviða bæjarferðum, afhverju? Umferðin frá borgarnesi til reykjavíkur/keflavíkur er alveg svakaleg og hún er óþolandi! Og fyrir manneskju eins og mig sem er örlítið félagsfælin er svakalega erfitt að fara á búðarrölt í troðningnum, hvert sem maður fer i höfuðborginni þá er alltaf NÓG að gera og allt of mikið af fólki.

Ódýrt að búa

Við höfum náð að spara okkur pening hérna sem við hefðum ALDREI náð að gera fyrir sunnan. Það er ódýrara að kaupa sér eign hérna og leigan ódýrari.

Það er ekki bónus eða sambærileg verslun hérna svo við nýtum bæjarferðina okkar sem við reynum að taka eina helgi í mánuði í að versla fyrir mánuðinn, það hefur líka kennt okkur mikið hvað þarf og hvað ekki, hvað er best að kaupa og svoleiðis og erum orðin mun skipulagðari þegar það kemur að innkaupum. Það eru líka engar freistingar þar sem við búum allavega, ef okkur virkilega vantar eitthvað þá pöntum við á netinu og ekkert auka drasl með eins og maður á nú til að gera þegar maður fer að versla.

Rólegheitin

Það er tilvalið að búa á landsbygðinni þegar maður er i námi t.d, engar truflanir og allt svo hljótt. Maður kynnist fjölskyldunni og sjálfum sér meira og elsku náttúrunni. Ekkert stress við að koma öllum í skóla, leikskóla og vinnu enda nokkrar minútur á milli staða (= lengri svefn).

Svo afhverju ekki? Ég mæli allavega með að allir prófi, sérstaklega fyrir fólk sem er i basli með þessa himinháu leigu fyrir sunnan, það er annað í boði en höfuðborgarsvæðið og þú gætir haft það svo gott annarsstaðar, getur átt efni á námi, safnað þér fyrir íbúð og fl. Ég er oft spurð afhverju við fluttum hingað, það var leigan í reykjavik sem ýtti okkur áfram, hitt sem ég taldi upp eru ástæðurnar afhverju við erum ennþá hérna. Ég heyri lika oft fólk tala um afhverju það gæti ekki flutt og þá er oft talað um húsnæðisleysi og atvinnuleysi, en það þarf ekki að vera, verður bara að skoða og vera opin. Hér er t.d nóg af atvinnu að fá og sum fyrirtæki tryggja starfsfólki sínu húsnæði. Svo ég spyr aftur – afhverju ekki?

Ein athugasemd á “5 ástæður afhverju þú ættir að flytja út á land

Lokað er fyrir athugasemdir.