Minn leiðangur að elska líkaman minn

Þegar ég leit í spegilinn sá ég bara gallana við líkaman minn. Mjaðmirnar voru orðnar svo breiðar, hárið var orðið svo þunnt eftir allt hárlosið, ég var með slit á lærunum sem ég þoldi ekki.

Ég var endalaust að bera mig saman við aðrar mömmur, þessi var búin að léttast svona mikið síðan hún fæddi barnið, þessi fékk ótrúlega töff slit á maganum, afhverju gat ég ekki frekar fengið slit á magan?

Ég varð nánast heltekin af því að koma mér strax aftur í gott form eftir að ég eignaðist dóttur mína. Endalaust voru að poppa upp auglýsingar hjá mér á samfélagsmiðlum um öpp eða kúra sem áttu að geta hjálpað mér að léttast.

Ég tók út allt óhollt hjá mér á einum tímapunkti, vigtaði og taldi ofan í mig hvað ég væri að borða.

Ég byrjaði að mæta í ræktina og varð vonsvikin ef ég gat ekki mætt alla daga. Ég var með æfingaplan, suma daga fór ég og tók planið fyrir þann dag 2x, eða eyddi auka 20-40 mínútum í brennslu. Því ég ætlaði að verða „flott“.

Þegar ég náði markmiðinu mínu leit ég aftur í spegil, ég var enþá með slit, ég var enþá með breiðar mjaðmir og enþá að takast á við hárlosið. Ég var komin í rosalega flott form og náðu ótrúlega flottum árangri á stuttum tíma, en það var ekki nóg.

Sama hvað kílóin fengu að fjúka, hvað maginn varð sterkari og stinnari, hvað mér tókst að ná litlu markmiðunum sem ég setti mér varð ég aldrei nógu ánægð með mig.

Ég hélt að ef ég myndi verða ánægð með líkaman minn ef ég myndi ná að missa 5 kg, svo breyttust 5kg yfir í 10. Kannski yrði ég ánægð með mig ef maginn yrði aðeins stinnari, lærin aðeins minni og rassinn stærri.

Pælið í biluninni, ég gekk með barn í 40 vikur og fékk risa stóra og fallega kúlu, ég slitnaði á lærunum og fékk breiðari mjaðmir því líkaminn minn breyttist eftir að ég gekk með barnið mitt.

Ég var svo ótrúlega heppin að geta gengið með barnið mitt sjálf, sem er ekki sjálfsagður hlutur, ég fékk að finna fyrir litlu spörkunum og hikstanum og fylgjast með hvernig bumban stækkaði með hverri viku.

Það að byrja læra elska líkaman minn aftur eftir barnsburð hafði nákvæmlega ekkert með ræktina að gera, eða að byrja telja ofan í mig hvað ég væri að borða mikið. Það að byrja elska líkaman minn tengdist 100% hugarfarinu mínu.

Ég er mamma með slit og slappa húð, en vitiði hvað? ég ELSKA það!

Ég mæti í ræktina í dag til að verða sterk og til að fá mína útrás, jafnvel stundum til að hugleiða. Það er magnað hvað ég hef náð að leysa mikið af vandamálum sem virðast vera risa stór í huganum á mér bara með því að skella mér í ræktina.

Í dag set ég mér lítil markmið og þegar ég næ þeim verð ég drullu sátt með mig. Ég stíg aldrei á vigtina, tek aldrei upp neitt málband og ber mig ALDREI saman við neinn, nei ekki einu sinni mig áður en ég varð ólétt.

Því sjáðu til, þú getur litið á þetta nákvæmlega eins og blöðru. Fyrst er blaðran voðalega lítil stíf, svo blæstu hana fulla af lofti, þegar loftið fer aftur úr verður blaðran aldrei nákvæmlega eins og hún var aftur.

Elskaðu líkaman þinn, hvort sem þú gekkst með barn eða ekki, ekki bera þig saman við neinn, þér á eftir að líða svo mikið betur.


Lokað er á athugasemdir.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: