Fæðingarsagan mín

Alla meðgönguna þá dreymdi mig um hvernig þetta yrði; myndi ég missa vatnið? hversu lengi mun ég vera í fæðingu? hvenær fæðist hún? hvernig verður fæðingin MÍN?

Ég planaði þetta allt. Ég ætlaði mér sko að eignast hana 2.Febrúar á 38 viku og ég ætlaði að missa vatnið á dramatískan hátt og fara svo strax í fæðingu þá – en svo var það ekki. Settur dagur rann upp, ekkert gerðist. Ég var gengin heilar 41 vikur, með enga samdrætti eða neitt. Loksins fékk ég tíma í gangsetningu, sem ég vildi samt alls ekki, því ég ætlaði mér að fara af stað sjálf. Ég get ekki einu sinni reynt að útskýra hvað mér leið ömurlega þessa seinustu daga, þessa 4 daga í bið eftir gangsetningardeginum, ég bara bað til Guðs um að leyfa þessu barni að koma út á sjálfum sér.

Dagurinn rann upp. 19.02.19. Við vöknuðum alltof snemma, miklu fyrr en við þurftum, örugglega bara útaf spenningi & stressi yfir komandi verkefni; fæðingunni. Við keyrum til Akranesar, til þess að fara í skoðun og fá lyfin til að byrja fæðinguna. Ég fæ lyfin og er send aftur heim í bæinn til að hvíla mig, undir því skilyrði að ég myndi taka töflu á tveggja klukkutíma fresti og svo koma aftur þegar verkurinn yrði alveg óbærilegur. Kem heim og ég leggst upp í rúm og ætlaði að hvíla mig en byrja mjög snöggt að fá litlar krúttlegar hríðar – sem ég breggst lítið við því mig datt ALDREI í hug að þetta væri virkilega að gerast svona hratt! En þeir verða sterkari, lengri og reglulegri – þetta voru alvöru verkir! Við ákveðum að keyra aftur til Akranesar bara til að láta kíkja á stöðuna; þótt ég væri alls ekki í óbærilegum sársauka og vissi í raun að ég væri ekki komin langt inn í fæðinguna en vildi bara fá eitthvað staðfest. Ég var með 2 mín á milli hríð og vildi bara láta kíkja á mig.

Ég mæti í skoðun um 5 leitið, ljósan tjékkar á útvíkuninni en hún vildi meina að ég væri EKKI byrjuð í fæðingu. Nei þetta vildi ég svo sannarlega ekki heyra! Hún segir mér að taka aðra töflu klukkan 18:00 og að fara bara út að borða til að reyna drepa tímann… Já, okei… Ég fer þá bara. Ég tek þessa blessaða töflu og fór út að borða á Galito, veitingastað sem er nálægt spítalanum – sem er by the way, geggjaður staður. Ég panta mér pizzu og er ekki einu sinni búin að fá matinn þegar ég ligg á gólfinu nánast í tárum yfir sársauka. Ég skipa mömmu minni og Geraldi að drífa sig að borða sinn mat og svo ætlum við STRAX aftur upp á spítala.

Við mætum aftur, í mesta lagi 20 mínútum seinna og hún sendir mig beint inn á fæðingarstofuna. LOKSINS! Þessir verkir voru svo hrikalegar slæmar; ég fékk storm hríðar semsagt fékk hríð ofan á hríð og þær voru sumar í 2-3 í senn sem var algjör martröð. Næstu tveir tímar af lífi mínu voru vægast sagt erfiðastir sem ég hef upplifað. Það leið yfir mig í baði og ég skallaði baðkarið, datt alveg útúr og heyrði ekkert. Þarna var ég virkilega byrjuð að efast um getu mína til að klára fæðinguna deyfingarlaust. Um 20 leitið þá kíkir ljósan á útvíkkuninni og segir „Þú ert bara komin 5cm, átt helling eftir“ og þá gjörsamlega missti ég alla vonina. Ég þrauka í kannski 5 mín lengur áður en ég gefst upp og bið um mænudeyfinguna sem ég sé svo sannarlega ekki eftir. Þvílik guðsgjöf sem þessi snilld er. Það þurfti að halda mér niður til að ná nálinni inn því ég náði ekki að vera kyrr í hríðunum en um leið og hún tekur virkni þá var ég SVO góð á því. Mér leið eiginlega bara einum of vel! Þessir tveir tímar sem mænudeyfingin virkar líða svo hratt, og þegar ég finn að hún sé að fara minnka þá læt ég ljósmóðurina vita af því. Hún vildi þá aftur tjékka á útvíkuninni áður en ég fæ áfyllingu á deyfinunni. Ég er komin í 7cm korter yfir 22, sem er mun betri en ég bjóst við meðað við hvað líkami minn náði að slaka vel á eftir að ég fékk deyfinguna! Hún biður mig um að reyna fara á klósettið svo að það sé ekki aukin þrystingur í klofinu því pissublaðran sé full. Ég er ennþá frekar chilluð á því þegar ég labba inn á baðherbegið og sest á klósettið, sver það, ég sat þarna í gegnum 3-4 hríðar áður en ég segi bara „Heyrðu ég þarf ekkert að pissa“ og þá segir hún mér bara að koma aftur fram. UM LEIÐ og ég stend upp þá finn ég sterkan þrysting og mikla rembingsþörf – ég bókstaflega öskra á hana að ég þurfi virkiiiilega að kúka. Hún var ekkert að kippa sér upp við því, þar sem ég var náttúrulega bara með 7 í útvíkkun fyrir nokkrum mínútum! En ég byrja rembast, á klósettinu, því ég hélt ég væri bara að kúka. En ég finn mjög fljótt á mér að ég þurfi að fara aftur inn í fæðingarstofuna og á rúmmið. Hvort að ég hafi innst inní mér vitað að þetta væri fæðingin eða hvað, ég veit það ekki en eitthvað í hausnum mínum sagði mér að DRÍFA mig upp í rúm – sem ég geri! Ég fer undir teppi, bara ef þetta skildi svo bara vera kúkur þá þarf engin að sjá það.

Ég byrja að rembast.

Ljósmóðirin starir á mig með eitt stórt spurningarmerki yfir andlitinu og spyr svo „Bíddu þarftu virkilega að rembast?“ – “VÆNTANLEGA ANNARS VÆRI ÉG EKKI AÐ ÞVÍ“ þannig hún ákveður að kíkja á mig aftur. Hún lyftir upp teppinu og sér strax hausinn á stelpunni og segir hissa „heyrðu já hún er að koma“ og rífur teppið af mér. Að heyra þessi orð var bara eldsneyti í eldinn, ég fékk svo mikið auka öruggi í sjálfri mér að vita að ég væri að fara hitta dóttur mína eftir örfáar mínútur! Ég lít á klukkuna og hún er bara 22:45 og ég man að ég hugsaði með mér „ég vona að hún komist í dag svo hún fái flotta kennitölu (brenglað, ég veit en 19.02.19 er samt svo flott kennitala ef þú spyrð mig!) Ég fæ aðra hríð og hún kemur út í henni, klukkan 22:47 eftir tæpar 7 mínútur ca í rembing. Ég bara varla trúði að þetta ferli væri búið. Nú var ég ekki ólétt lengur. Nú var engin pæling eftir um hvernig fæðingin yrði en mikið var ég ánægð að fá hana, sjá hana, knúsa hana, loksins halda á henni í höndunum mínum. Þótt að fæðingin hafi ekki gengið eins og ég hafði dreymt um, þá þykir mér svo vænt um þessa sögu og myndi ekki gera neitt öðruvísi ef ég þyrfti að upplifa þetta aftur á morgun. Ég gerði það sem ég taldi vera rétt fyrir mig, minn líkama og mínar aðstæður og sé ekki eftir neinu. Fylgjan kemur 15 mínútum seinna, og var því, fæðingunni minni lokið❤️

Lokað er á athugasemdir.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: