Nýtt hlutverk + slökunarráð

Í byrjun maí á þessu ári tók lífið mitt U beygju.

Ég var í miðjum vorprófum í háskólanum og lærdómsstressinu sem fylgir því þegar ég fattaði að ég hefði átt að byrja á blæðingum fyrir rúmlega viku. Ég hugsaði ekkert of mikið um það, ég hafði alveg verið sein áður en ég ákvað samt að kaupa próf og bjóst bara við því að ég myndi taka það, fá neikvætt og síðan byrja á túr daginn eftir eins og hin skiptin. En nei, ekki í þetta skiptið. Ég var varla búin að leggja prikið frá mér þegar það var komin áberandi lína sem bara dökknaði með tímanum. Ég varð bæði skíthrædd og ótrúlega spennt á sama tíma. Mig hefur alltaf langað að vera frekar ung mamma en planið var samt í bíða í tvö til þrjú ár í viðbót, klára nám, kaupa íbúð og allt þetta… en maður getur víst ekki planað allt og þetta barn er mjög svo velkomin viðbót í litlu fjölskylduna okkar.

Þó svo að þessu fylgi mikil hamingja þá fylgir þessu einnig mikið stress og óvissa og kvíðasjúklingurinn sem ég er höndla það ekkert voðalega vel, ég get flækt fyrir mér einföldustu hluti og ég eyði alltof miklum tíma í að hugsa um alla hlutina sem mögulega gætu farið úrskeiðis, allt sem á eftir að græja og fá kvíðahroll yfir hlutunum sem gætu gleymst.

Ég “google-a” allt í þaula, les allar greinar og pistla um hluti sem ég þarf að kaupa og hluti sem ég á alls ekki að kaupa afþví það gæti skaðað barnið mitt á einhvern hátt.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því hversu klikkuð ég virðist þegar ég sendi endalaust af greinum á kærastann minn um hvað við þurfum að gera til að þessi krakki muni standa sig sem best í lífinu þegar það eru ennþá rúmlega fjórir mánuðir í að það fæðist… en ég geri það nú samt.

Ég veit að einhverjir verðandi eða núverandi kvíðasjúkir foreldrar tengi við þetta vandamál og því fannst mér tilvalið að deila með ykkur þeim ráðum sem ég nota til að róa aðeins taugarnar, lifa í núinu og reyna að njóta.

Stoppa, loka augunum og anda djúpt

Ég veit að þetta hljómar klisjulega en það er góð ástæða fyrir því… afþví þetta virkar! Að stoppa aðeins og anda núllstillir líkamann, hjartað slær hægar, öndunin verður dýpri og hugurinn fær smá pásu.

Ég sest oft á gólfið eða bara einhvers staðar þar sem ég get komið mér vel fyrir og tek nokkrar mínútur í þetta til að tæma hugann.

Skrifa hluti niður

Ef ég hugsa bara um hlutina þá snýst ég í endalausa hringi og finn aldrei lausn. Það hjálpar mér mikið að vera með bók sem ég skrifa í helstu pælingar, hugmyndir, áhyggjuefni, lista yfir hluti sem þarf að græja og gera og í rauninni bara allt sem mér dettur í hug. Fyrir mér er það eins og að laga til í heilabúinu og gefur mér pláss til að njóta afþví ég hef ekki áhyggjur af því að gleyma neinu.

Tala við sálfræðing/annan fagaðila

Það hjálpar mér mjög mikið að geta talað við manneskju sem hlustar á vælið í mér, svarar mér hlutlaust og dæmir mig ekki sama hvað.

Leyfðu þér að vera smá “crazy”

Þetta er stressandi tími og það er enginn að búast við því að maður sé sultuslakur allan tímann, ef það er eitthvað sem ég hef áhyggjur af þá skoða ég málið en ég reyni að muna samt að hlusta á skynsemina og ekki panikka yfir einhverju sem ég finn skrifað á spjallþræði á yahoo answers… ef það gerist þá er alltaf hægt að tala við ljósmóður sem getur sagt manni sannleikann og róað taugarnar.

Lokað er á athugasemdir.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: