Að ferðast með ungabarn

Í apríl síðastliðinn fórum við, ásamt stórfjölskyldunni, til Tenerife í tveggja vikna slökun. Arndís var þá bara sex mánaða og fylgdi ferðinni töluverður óróleiki og stress. Á þeim tíma var hún bara á brjósti, rétt aðeins byrjuð að smakka banana og graut. Við ákváðum að vera ekkert að breyta því neitt, þar sem í brjóstagjöfinni felast mikil þægindi.

Leið að brottför og ég með um það bil þriggja metra langann to-do lista með öllu sem þurfti að hafa meðferðis og ýmsum atriðum varðandi hvernig best væri að ferðast með lítið kríli.

Allt saman gekk þetta þó ótrúlega vel, enda er Arndís svo ótrúlega vel heppnað eintak 😉 Mig langar þó að deila lista með ráðum og ýmsu sem reyndist okkur vel, eða ekki-svo-vel.. hafið þó í huga að þetta á við um það sem virkaði fyrir okkur og er það ekki endilega eitthvað sem mun henta öllum.

  1. KERRA – okkur fannst ótrúlega gott að hafa kerruna með þar sem við fórum lang oftast fótgangandi. (Þetta á þó ekki við um alla áfangastaði, þar sem mismikill kostur gefst á því að labba – færslan er einungis miðuð við okkar reynslu). Við erum með Cybex Balios M, sem fellur mjög vel saman og er hægt að lengja í skerminum til að skýla fyrir sól. Eina sem ég hefði viljað hafa aukalega er poki utan um kerruna, svona fyrir ferðalagið.
  2. BÍLSTÓLL – við tókum bílstólinn með okkur, en komum einungis til með að nota hann frá flugvellinum og að hótelinu og eins til baka. Myndi næst vilja panta bara leigubíl sem bíður upp á kost á bílstól. í flugvélinni sat ég bara með hana í fanginu og hafði hana í babybjörn poka framan á mér þegar hún svaf, annars flakkaði hún svolítið á milli okkar allra.
  3. FLUGIÐ – ég sat við gang og fannst það muna öllu, upp á að geta staðið upp án þess að trufla aðra, til dæmis til að skipta á henni, róa hana eða svæfa. Almennt gekk þó flugið ótrúlega vel – en ég hafði verið lang stressuðust fyrir því. Ég hef þess vegna fá ráð varðandi hellur og annað en ég passaði bara að hafa hana á brjóstinu í flugtaki og lendingu. Við pössuðum upp á að hafa líka aukaföt á bæði hana og okkur foreldrana (svona til öryggis). Einnig höfðum við fengið ráðleggingar ýmisstaðar frá að gefa henni stíl fyrir flug, en enduðum á því að nota hann ekki þar sem við fundum ekki til þess þörf, en þetta gæti eflaust nýst mörgum.
  4. ALMENNT – sólavörn og sólhattar voru alltaf nr 1,2 og 3 á okkar forgangslista og eins að passa að barninu verði ekki of heitt, né of kalt (gerðum það td með því að leggja undir hana hvítt teppi þar sem kerran var svört og oft festum við taubleyju ofan á skerminn, til að minnka hitann sem myndast í kerrunni. Vorum líka alltaf með pela með vatni meðferðis og hef ég líka heyrt talað um að eplasafi hjálpi sé barnið ekki duglegt að drekka vatn (þetta á nú samt eflaust við um aðeins eldri börn.)
  5. ,,don’t sweat it“ … þetta gengur allt saman upp, þó það fari kannski öðruvísi en maður hafði gert ráð fyrir.

Ferðin okkar gekk eins og í sögu og var þetta ótrúlega dýrmæt og skemmtileg ferð fyrir okkur öll. Arndís naut þess að sóla sig, og við foreldrarnir auðvitað líka.

Börnin eru þó öll misjöfn og eru ferðalögin þá auðvitað í takt við það. Ég vona þó að þið getið nýtt eitthvert þessara ráða. Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Lokað er á athugasemdir.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: